Strákarnir í 3. fl bikarmeistarar!

Fótbolti
Strákarnir í 3. fl bikarmeistarar!
Bikarmeistarnir sáttir í leikslok!

Strákarnir í 3. fl urðu bikarmeistarar Norður- og Austurlands eftir að hafa unnið sterkt Þórslið í vítaspyrnukeppni. 

Þórsarar byrjuðu leikinn aðeins betur en fljótlega náðu KA-menn yfirhöndinni. Áki Sölvason fékk gott færi til að koma KA yfir eftir gott samspil en markmaður Þórs sá við honum. Á 25. mínútu vildu KA-menn fá víti þegar boltinn fór í hendi Þórsara en dómarinn dæmdi ekkert, það kom þó ekki úr sök því að Daníel Hafsteins var ákveðnari en markmaður Þórs og náði að skora úr þröngu færi. Á 32. mínútu fékk miðjumaður Þórs sitt annað gula spjald og þurfti hann því að fara í sturtu. Daníel tók aukaspyrnuna sem Þórsarar voru í vandræðum með sem endaði með að Björn Andri setti boltann í markið. KA voru því komnir í þæginlega stöðu er þeir fóru inn í hálfleikinn. 

Þórsarar komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og uppskáru tvö mörk á 52. og 54. mínútu. Það sem eftir lifði hálfleiksins voru Þórsarar betri og var ekki að sjá að þeir væru manni færri. Það var þó jafnt eftir venjulegan leiktíma og þurfti því að grípa til framlengingar. 

Jafnræði var með liðunum í framlengingunni og náði hvorugt lið að skora. KA hafði betur í vítaspyrnukeppninni þar sem Áki Sölva, Pétur Þorri, Andri Snær og Hjörvar Sigurgeirs skoruðu fyrir KA ásamt því að Aron Dagur markmaður sá til þess að Þórsarar misnotuðu tvær spyrnur.

Strákarnir fögnuðu vel í leikslok enda ekki á hverjum degi sem bikar fer á loft. Það er þó gaman að segja frá því að þetta er fjórða árið sem að KA vinnur bikarkeppni Norður- og Austurlands í 3. fl drengja.

Þjálfarar flokksins eru Aðalbjörn Hannesson og Andri Snær Stefánsson. 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband