Sex leikmenn undirrita samninga við Akureyri

Almennt | Handbolti

Í gær, miðvikudag var formlega gengið frá samningum við sex leikmenn Akureyrar Handboltafélags. Sigþór Árni Heimisson og Kristján Orri Jóhannsson framlengdu sína samninga en þeir léku báðir með liðinu í fyrravetur. Sverre Andreas Jakobsson, Ingimundur Ingimundarson, Elías Már Halldórsson og Daníel Örn Einarsson koma allir nýir til leiks en þó er rétt að nefna að Daníel Einarsson lék með Akureyri tvö tímabil frá 2010 til 2012. Við bjóðum þá alla hjartanlega velkomna í leikmannahóp Akureyrar Handboltafélags.


Glæsilegur hópur, Sigþór, Daníel, Sverre, Ingimundur, Kristján og Elías

Undirritun samninganna fór fram á Glerártorgi að viðstöddum fulltrúum frá Nettó, Sportver og Vífilfelli. Að sjálfsögðu vöktu kapparnir verulega athygli hjá fjölmörgum viðskiptavinum Glerártorgs og greinilegt að margir bíða í ofvæni eftir að handboltatímabilið hefjist á ný.
Margir spurðu um markvörðinn Hreiðar Levý Guðmundsson, því er til að svara að hann er staddur í Noregi en er væntanlegur til Akureyrar á næstu dögum.

Ljósmyndarinn Þórir Tryggvason var á staðnum og myndaði herlegheitin, en það var Hlynur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Akureyrar Handboltafélags sem undirritaði samningana fyrir hönd félagsins.


Sigþór Árni Heimisson og Hlynur handsala samninginn


Daníel Örn Einarsson og Hlynur búnir að undirrita samninginn


Kristján Orri Jóhannsson og Hlynur.
Allt annað að sjá Hlyn í þessum glæsilega bol frá Sportver


Elías Már Halldórsson og Hlynur handsala samninginn


Ingimundur Ingimundarson og Hlynur sáttir með tilveruna


Sverre Andreas Jakobsson og Hlynur takast í hendur

Í dag hefst fyrsta æfingamótið hjá strákunum en þeir halda í Hafnarfjörðinn þar sem þeir mæta Haukum, FH og ÍBV, fylgst verður með gangi mála þar á heimasíðu Akureyrar Handboltafélags.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband