Öruggur sigur á Haukum | Umfjöllun

Almennt | Fótbolti
Öruggur sigur á Haukum | Umfjöllun
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Völlurinn var grænn, veðrið var gott og áhorfendur vel stemmdir þegar að Erlendur Eiríksson, málari, flautaði til leiks á KA-velli kl. 16:00 á laugardaginn. Lið KA og Hauka áttust við í þriðju umferð 1. deildarinnar og mikið í húfi, eins og endranær. Leiknum lauk með 3-1 sigri KA-manna.

KA 3-1 Haukar
0-1 Björgvin Stefánsson 6. mín
1-1 Ævar Ingi Jóhannesson 20. mín
2-1 Arhchange Nkumu 63. mín
3-1 Juraj Grizelj 73. mín

Það blés ekki byrlega fyrir KA-menn og fjölmarga áhorfendur sem mættir voru á KA-völlinn á laugardaginn þegar að Haukar skoruðu fyrsta mark leiksins eftir aðeins sex mínútna leik. KA-menn gerðu sig seka um mistök í vörninni sem varð til þess að Björgvin Stefánsson komst inn í sendingu í öftustu línu og lagði boltann laglega framhjá Fannari í markinu, óverjandi. 

KA hafði verið sterkari aðilinn þessar fyrstu fimm mínútur og við markið þyngdist sókn heimamanna gríðarlega. Fullt af flottum hlaupum upp kantana og margar fyrirgjafir litu dagsins ljós næstu mínútur, án þess þó að heimamenn næðu að gera sér mat úr þeim. Eitt slíkt hlaup og fyrirgjöf skilaði þó marki á 20. mínútu þegar að Juraj Grizelj gerði vel á vinstri kantinum og tók einn Haukamann á, áður en hann gaf boltann á fjærstöng þar sem Ævar Ingi Jóhannesson var mættur og kláraði færið vel, 1-1. 

Sókn KA-manna hélt áfram að þyngjast og liðu oft margar mínútur á milli þess sem að Haukar fengu boltann til þess að spila honum sín á milli. Pressa KA-manna var góð og fengu Haukar lítinn frið með boltann. Staðan var þó óbreytt í hálfleik, 1-1.

KA-menn komu grimmir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru mark á 63. mínutu þegar að Archange Nkumu kom boltanum í mark Haukamanna eftir mikinn atgang í teig Haukanna. Fyrsta mark Archie fyrir KA staðreynd og staðan orðin 2-1.

Þrátt fyrir að KA væri komið með forystu var ekkert sem benti til þess að sigurinn væri í hættu. KA menn héldu uppteknum hætti og héldu áfram að sækja. Það skilaði marki á 73. mínútu þegar besti maður vallarinns, Juraj Grizelj, skoraði glæsilegt mark eftir einleik upp kantinn. Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós og öruggur sigur KA manna staðreynd. 

Fyrir utan fyrstu 6 mínútur leiksins lék KA-liðið mjög vel í leiknum og þrátt fyrir að lenda undir var fátt sem benti til annars að KA-liðið myndi vinna þennan leik. Sigurinn kom þó ekki alveg ókeypis því að Gauti Gautason, varnarmaðurinn knái, ristarbrotnaði og verður frá keppni í 6-8 vikur. 

Næsti leikur KA er gegn Gróttu á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi á laugardaginn en næsti heimaleikur er gegn Álftanesi í bikarnum þriðjudaginn 2. júní.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband