Ágætis helgi hjá 3. flokki kvenna KA/Þór að baki

Handbolti

Síðustu helgi fór 3. flokkur kvenna suður til þess að keppa tvo leiki. Á föstudeginum spiluðu þær bikarleik við Víking í 16-liða úrslitum og á sunnudeginum spiluðu þær svo við Fjölni í deildinni. Það vantaði þó einn lykilmann í liðið hjá stelpunum þar sem Sunna Guðrún, eini markmaður liðsins, komst ekki með í ferðina sökum veikinda. 

Víkingur - KA/Þór (bikarkeppnin)
Þessi leikur átti fyrirfram að vera tiltölulega auðveldur fyrir stelpurnar þar sem KA/Þór leikur í 1. deild og stefnir á að enda í efrihluta deildarinnar en Víkingur er eins og stendur í neðrihluta 2. deildar. Þó getur allt gerst í bikarnum og vissu stelpurnar að þær þyrftu að leggja sig allar fram til að komast áfram. 

Leikurinn byrjaði ekki nægilega vel hjá stelpunum og lentu þær undir 5-3. Þá tók við ágætur kafli hjá stelpunum þar sem þær skoruðu þrjú mörk gegn einu marki Víkings og eftir 16 mínútna leik var staðan 6-6. Eftir það ákváðu stelpurnar að sýna sitt rétta andlit og léku við hvern sinn fingur í vörninni sem skilaði fjöldanum öllum af hraðaupphlaupum og var staðan í hálfleik 8-15, KA/Þór í vil. 

Síðari hálfleikur var svo bara framhald af fyrrihálfleiknum og héldu stelpurnar áfram að spila vel og juku forskotið jafnt og þétt út hálfleikinn. Leikurinn endaði því með 13 marka sigri KA/Þórs, 18-31 og stelpurnar komnar áfram í 8-liða úrslit í bikarnum.

Arna Kristín Einarsdóttir fór hamförum og skoraði 12 mörk og Birta Fönn Sveinsdóttir skoraði 10.

Fjölnir - KA/Þór
Síðari leikur helgarinnar var við Fjölni. Viku fyrr höfðu stelpurnar unnið Fjölni 29-20 á heimavelli. Í þeim leik varði Sunna um 18 skot í markinu en núna vantaði hana svo stelpurnar vissu að þær þyrftu að leika vel til þess að landa sigri á heimavelli Fjölnis. Leikurinn fór jafnt af stað og var jafnt á öllum tölum upp í stöðuna 6-6 en þó tókst Fjölni að komast yfir og voru 5 mörkum yfir í hálfleik, 16-11. 

Síðari hálfleikur hófst brösulega hjá stelpunum og á fyrstu 10 mínútum hálfleiksins höfðu þær einungis skorað tvö mörk á móti 4 hjá Fjölni og staðan orðin 20-13 Fjölni í vil og róðurinn orðinn erfiður fyrir KA/Þór. Stuttu síðar misstu norðanstúlkur tvo menn af velli og staðan orðin mjög erfið. Þá tók þjálfari KA/Þórs uppá því að setja aukamann í vesti inn í sóknarleikinn með því að taka markvörðinn útaf í sókn. Þetta trix virkaði gríðarlega vel og náðu stelpurnar að minnka muninn jafnt og þétt þar sem þær léku á alls oddi sóknarlega og skoruðu í hverri sókn. Stelpurnar náðu þó ekki að jafna metin áður en leikurinn kláraðist en lokatölur voru 30-28 Fjölni í vil. Gríðarlega góð barátta síðasta korterið í leiknum var aðdáunarverð þar sem vestismaðurinn sóknarlega kom mjög vel inn þrátt fyrir að vera algjörlega óæft.

Heimaleikur gegn HK á fimmtudaginn
Næsti leikur hjá stelpunum er á morgun, fimmtudaginn 27. nóvember, kl. 17:50 í KA-heimilinu á móti HK. Stelpurnar töpuðu síðasta leik gegn HK 30-26 en eru staðráðnar í að klára leikinn á morgun. Við hvetjum alla til að mæta og sjá framtíðarleikmenn KA/Þórs spila hörkuleik.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband