Tilnefningar til liðs ársins hjá KA 2023

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Sjö lið eru tilnefnd til liðs ársins hjá KA á árinu 2023 en þetta verður í fjórða skiptið sem verðlaun fyrir lið ársins verða veitt. Verðlaunin verða tilkynnt á 96 ára afmæli félagsins á mánudaginn á glæsilegu vöfflukaffi og spennandi að sjá hvaða lið hreppir þetta mikla sæmdarheiti.

Meistaraflokkur kvenna í blaki átti satt að segja alveg magnað tímabil og vann alla titla sem hægt var að vinna á tímabilinu 2022-23. Meistari meistaranna, Deildar-, Bikar og Íslandsmeistarar. Í lok síðasta tímabils átti liðið þrjá fulltrúa þær Jónu Margréti uppspilara, Helenu Kristínu kant og Valdísi Kapitólu líberó í liði ársins sem valið er af Blaksambandi Íslands. Eins var Helena Kristín valinn leikmaður úrvalsdeildarinnar, það sýnir hversu ótrúlega sterku liði KA spilar fram þar sem það er fagmaður í hverri stöðu.

Stúlkurnar í U14 gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leiki sína á síðasta tímabili og urðu bæði Bikar og Íslandsmeistarar. Ótrúlega magnaður hópur sem sýnir okkur að yngri flokka starfið hefur sannarlega verið að gera góða hluti og að framtíðin sé björt í blakinu.

Strákarnir í 3. flokki KA urðu Íslandsmeistarar í A og B-liðum sem og bikarmeistarar. A-liðið byrjaði sumarið ágætlega en varð óstöðvandi í lok sumars. Þar unnu þeir lotu 3 sannfærandi ásamt því að verða bikarmeistarar.

B-liðið var yfirburðarlið allt sumarið og kórónuðu þeir gott sumar með að vinna úrslitaleik Íslandsmótsins. C-liðið var einnig öflugt en þeir voru einungis nokkrum sekúndum frá því að komast í undanúrslit Íslandsmótsins. Flokkurinn fór einnig saman út á Gothia Cup þar sem þeir stóðu sig með prýði og sköpuðu skemmtilegar minningar.

Strákarnir í C-liði 4. flokks KA urðu Íslandsmeistarar, A-lið flokksins fékk silfur á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni, D-lið flokksins fékk silfur á Íslandsmótinu og B-lið flokksins komst í 8-liða úrslit Íslandsmótsins. Strákarnir í C-liðinu spiluðu virkilega flottan fótbolta þar sem hápunkturinn var 3-0 sigur í úrslitaleik Íslandsmótsins.

A-liðið var með mikinn stíganda í sínum leik á tímabilinu. Þeir gerðu sér lítið fyrir og komust í úrslitaleiki á bæði Íslandsmótinu og bikarkeppninni sem fóru báðir í framlengingu en heppnin var ekki með okkar mönnum. B- og D-liðin stóðu sig einnig mjög vel eins og áður segir. Eldra árið fór til Svíþjóðar og yngri árið á ReyCup og var árangurinn einnig góður á þeim mótum.

A-lið flokksins komst í alla úrslitaleiki sumarsins og var uppskeran Íslandsmeistaratitil og silfur á Gothia Cup og í bikarkeppninni. Liðið er vel að þessu komið enda miklar keppniskonur sem gefa ekkert eftir í flokknum. Allur flokkurinn fór á Gothia Cup þar sem U14 KA 1 vann hvern leikinn á fætur öðrum en tapaði í hörku leik gegn sænska stórveldinu Hammerby í úrslitaleik.

Það má segja að Gothia Cup hafi verið vendipunktur á sumrinu því A-liðið varð mjög öflugt restina af sumrinu eins og árangurinn gefur til kynna. B- og C-lið flokksins átti einnig marga góða leikkafla án þess að vinna til verðlauna.

Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og urðu deildarmeistarar og töpuðu þar einungis einum leik í þeirri keppni. Þær spiluðu svo til úrslita í bikarkeppni hsí en urðu að lúta í gras þar. Þeim tókst hins vegar að verða Íslandsmeistarar eftir æsilegan leik við Val. Það má því með sanni segja að tímabilið hjá stelpunum hafi því verið stórkostlegt í heild sinni með tvo titla og eitt silfur!

Stelpurnar í 6. flokki áttu frábært tímabil. Margar stelpur að æfa og stilla upp með mörg lið til leiks. A-liðið hjá þeim gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leikina og allar túrneringarnar í 6. flokki á síðastliðinu keppnistímabili og enduð því sem íslandsmeistarar. Það sem af er á þessu tímabili er sama uppskrift og hafa þær því ekki ennþá tapað leik á sínum keppnisferli.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is