Meistaraflokkur kvenna í blaki lið ársins 2023

Blak
Meistaraflokkur kvenna í blaki lið ársins 2023
Stórkostlegt lið! (mynd: Þórir Tryggva)

Meistaraflokkur kvenna í blaki er lið ársins hjá KA árið 2023 og eru stelpurnar ansi vel að heiðrinum komnar en þær eru ríkjandi Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar og Deildarmeistarar auk þess að þær hófu síðasta tímabil á því að hampa titlinum Meistarar Meistaranna.

Í lok síðasta tímabils átti liðið þrjá fulltrúa í úrvalsliði ársins sem valið er af Blaksambandi Íslands en það eru þær Jóna Margrét Arnarsdóttir uppspilari, Helena Kristín Gunnarsdóttir kantur og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir líberó. Þá var Helena Kristín valin besti leikmaður úrvalsdeildarinnar og sýnir  það hversu ótrúlega sterku liði KA spilar fram þar sem það er fagmaður í hverri stöðu.

Stelpurnar hafa haldið áfram sama damp á núverandi tímabili og sitja í efsta sæti deildarinnar ásamt liði Aftureldingar og ljóst að hörð barátta er framundan við að verja Deildarmeistaratitilinn.

Þá var Miguel Mateo Castrillo þjálfari stelpnanna valinn þjálfari ársins en auk þess að hampa öllum þessum titlum með kvennaliði KA stýrði hann karlaliði KA til Íslandsmeistaratitilsins. Mateo er gríðarlega metnaðarfullur og hefur heldur betur lyft grettistaki í starfi blakdeildar KA frá því hann kom til félagsins árið 2018.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is