Tveir leikmenn frá Rúmeníu leika með KA/Þór í vetur

Almennt | Handbolti

Í dag undirrituðu tveir leikmenn frá Rúmeníu samning um að leika með KA/Þór í vetur. Þetta eru þær Kriszta Szabó og Paula Chirli.

Þær eru 22 og 23 ára gamlar og hafa heillað forráðamenn KA/Þór undanfarna viku en þær hafa verið hér á reynslu. Kriszta er markvörður en Paula er rétthent skytta/miðjumaður.

KA/Þór fór æfingarferð suður síðustu helgi þar sem þær léku með liðinu og sýndu þær góða takta. Í þessari æfingarferð vann liðið Val með 1 marki, gerði jafntefli við HK og tapaði fyrir Fylki.

Gunnar Ernir, þjálfari KA/Þór, er hæstánægður með viðbótina í liðið: „Já þetta eru flottir leikmenn og koma til með að styrkja okkur á komandi leiktíð. Í fyrra var Sunnu Pétursdóttur hent í djúpu laugina í markinu og stóð hún sig vel en hún er aðeins 15 ára gömul og er því gott að hún fái reyndari markvörð með sér í vetur.
Paula er lunkinn leikmaður og getur leyst allar stöðurnar fyrir utan mjög vel. Þetta verður spennandi vetur og setjum við markið hátt“, sagði Gunnar.

Á meðfylgjandi mynd eru þær Paula (t.v.) og Kriszta (t.h.) að handsala samninginn við formann deildarinnar, Siguróla Sigurðsson


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband