Þór/KA steinlá gegn Stjörnunni

Fótbolti
Þór/KA steinlá gegn Stjörnunni
Þór/KA varð undir í baráttunni gegn Stjörnunni

Kvennalið Þórs/KA tók á móti Stjörnunni í 15. umferð Pepsi deildar kvenna í gærkveldi. Fyrirfram mátti búast við hörkuleik enda liðin í 2. og 3. sæti deildarinnar, annað kom hinsvegar á daginn og Stjörnustúlkur voru miklu sterkari aðilinn í leiknum og fóru leikar 0-4 þeim ívil.

Þór/KA 0 - 4 Stjarnan
0-1 Ágústa Kristinsdóttir ('8, sjálfsmark)
0-2 Harpa Þorsteinsdóttir ('44)
0-3 Francielle Manoel Alberto ('64)
0-4 Rúna Sif Stefánsdóttir ('69)

Ekki var mikið búið af leiknum þegar Ágústa Kristinsdóttir varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Stjörnustúlkur höfðu byrjað leikinn af krafti og strax átt ágætis færi þegar hornspyrna þeirra endaði með því að Ágústa rak boltann í netið, staðan orðin 0-1.

Sandra María Jessen gerði sig líklega til að jafna metin um leið en eftir góðan sprett endaði skot hennar framhjá. Eftir þetta færi hélt Stjarnan áfram að stjórna leiknum og vonaðist maður einfaldlega eftir því að Þór/KA næði að fara með 0-1 stöðuna inn í hálfleikinn. En það tókst ekki þar sem Harpa Þorsteinsdóttir tvöfaldaði forskotið á 44. mínútu með óverjandi skoti.

Hvort að þetta seinna mark hafi brotið Þór/KA eitthvað niður veit ég ekki en áfram vantaði það bit í leik liðsins sem hefur verið svo sannarlega til staðar í undanförnum leikjum. Það kom því ekki sérlega á óvart þegar Francielle Manoel skoraði þriðja mark gestanna með skoti fyrir utan teig sem virtist fara í varnarmann og í netið. Staðan orðin 0-3 og leikurinn í raun búinn.

Lokamark leiksins kom svo stuttu síðar eða á 69. mínútu þegar Rúna Sif Stefánsdóttir skaut í slá og inn. Bæði lið reyndu að bæta við marki en hvorugu liðinu tókst það og lokatölur því 0-4 fyrir gestunum.

Niðurstaðan mikil vonbrigði enda hefur Þór/KA verið að spila glimrandi fótbolta að undanförnu, lið Stjörnunnar virðist vera betra lið en munurinn á liðunum er alls ekki svona mikill. Nú þegar enn eru þrjár umferðir eftir af deildinni situr Þór/KA í 4. sæti deildarinnar og ljóst að liðið getur í besta falli endað í 3. sæti deildarinnar. Nú er bara að rífa sig aftur í gang og sækja sigur gegn Val í næsta leik, það er um að gera að sækja 3. sætið og enda tímabilið með stæl, áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband