Stórsigur hjá 3. flokki KA/Þór

Almennt | Handbolti
Stórsigur hjá 3. flokki KA/Þór
Harpa Rut Jónsdóttir skoraði fimm mörk

Stelpurnar í 3. flokki kvenna fóru suður um helgina til þess að etja kappi við Gróttu. Leikurinn fór rólega af stað og var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar. KA/Þór komst þó fljótlega yfir og leiddi með 2-3 mörkum framan af fyrri hálfleik. Þegar um 15 mínútur voru búnar þá gáfu norðanstúlkur í og náðu að auka muninn, þar var það Ásdís Guðmundsdóttir sem fór þar fremst í flokki og skoraði hreinlega að vild. Stelpurnar juku muninn jafnt og þétt út hálfleikinn og þegar gengið var til búningsklefa leiddu stelpurnar 10-18.

Í byrjun síðari hálfleiks tóku þær upp þráðinn aftur og náðu að auka forskotið enn meira og skoruðu mörk í öllum regnbogans litum. Varnarleikurinn var góður og skilaði hann nokkrum einföldum hraðaupphlaupsmörkum og forskotið jókst eftir því sem leið á leikinn og endaði leikurinn með 15 marka sigri KA/Þórs í hreint út sagt frábærum leik þar sem liðsheildin og stemmningin var alsráðandi. Stelpurnar spiluðu hvor aðra uppi trekk í trekk, börðust allan tímann í vörninni. Í markinu stóð Sunna Guðrún og varði fjöldann allan af skotum. 

Markaskorið dreifðist vel á nær alla leikmenn liðsins: Ásdís Guðmundsdóttir 10, Arna Kristín Einarsdóttir 8, Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Harpa Rut Jónsdóttir 5, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 2, Kolbrún María Bragadóttir 2 og Rakel Ösp Sævarsdóttir 1. 

Stelpurnar byrja mótið því með stæl og ætla ekkert að gefa eftir í þessum leikjum í vetur. Næsti leikur hjá 3. flokki er svo eftir viku en þá koma Haukastelpur í heimsókn og við vonum að fólk mæti og styðja stelpurnar því þetta eru leikmenn framtíðarinnar í kvennaboltanum á Akureyri.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband