Misjöfn helgi hjá 4.kvk

Handbolti

4. flokkur kvenna fór suður nú um helgina. Fyrir lágu tveir leikir hjá yngra ári og tveir leikir á eldra ári.

Eldra ár gegn HK
Eldra árið spilaði á föstudegi gegn liði HK í Digranesi. Liðið var heldur vængbrotið þar sem hægri skyttan Lísbet komst ekki með í ferðina auk þess sem Arnrún markmaður var að blakast á austurlandi. Því var öllu verra þegar miðjumaðurinn Aldís Heimisdóttir tók upp á því að ná sér í umgangspest á föstudagsmorguninn. Þegar lagt var af stað á föstudagsmorgni var því búið að kvarnast vel úr liðinu. Það dró þó til tíðinda þegar Aldís tilkynnti að hún væri orðin frísk og mætti með flugi 50 mínútum fyrir leik. Þessar róteringar og þessi óvissa virtist heldur betur fara illa í KA/Þór stelpur og er eiginlega best að eyða sem fæstum orðum um þennan leik. Leikurinn byrjaði mjög illa, KA/Þór vann sig þó inn í leikinn en missti HK aftur frá sér fyrir hálfleik. Síðari hálfleikur var síðan, tjah, katastrófa? Ætli það orð sé ekki best. Eina sem komst ágætlega frá sínum leik var Aldís Heimisdóttir sem hafði fyrr um daginn legið fárveik. Lokatölur 30-20 fyrir HK og var það ágætlega sloppið. Vörn og markvarsla var langt frá því að vera góð og nýting á færum í sókninni var með ólíkindum slök. HK spilaði vissulega vel en KA/Þór stelpur voru svo langt frá sínu besta að það var með ólíkindum. Fyrsta tap 99 árgangsins í deild í 4. flokki staðreynd.

Eldra ár gegn Fjölni
Leikurinn daginn eftir var svo gegn Fjölni sem hefur þetta árið skipað sér í sess með sterkustu liðunum. Hafði fyrir leikinn aðeins tapað einu stigi. Fjölnir byrjaði leikinn mun betur og komst í 8-3 og leifar af leiknum daginn áður sást enn í norðanstúlkum. Þó voru ýmis batamerki og hægt og bítandi vann KA/Þór sig inn í leikinn. Fjölnir leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 14-12. Eftir andlega íhugun í hálfleik mættu KA/Þórs stelpur til leiks í þessa helgi. Vörnin var hreint út sagt óaðfinnanleg og Heiðbjört hrökk í gang fyrir aftan. þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 20-15 fyrir KA/Þór. Síðustu mínúturnar náðu Fjölnis stelpur að klóra í bakkann, lokatölur 22-18.

Það að skíta upp á bak (afsakið orðbragðið) tekur á andlega. Að byrja næsta leik strax eftir illa en ná að vinna sig út úr því og koma til baka og vinna góðan sigur gegn mjög sterku liði á erfiðum útivelli sýnir mikinn karakter. Stelpurnar geta allar borið höfuðið hátt eftir þessa helgi. Það að tapa gerist í handbolta, hvernig þú bregst við því sýnir úr hverju þú ert gerður. Stelpurnar sýndu það svo sannarlega um þessa helgi og sendu í leiðinni ákveðin skilaboð.

Yngra árið gegn Aftureldingu
Yngra árið hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er vetri en hafa sýnt mikil batamerki í síðustu leikjum. Þær áttu leik gegn Aftureldingu á föstudagskvöldinu. Þar sem Heiðbjört spilaði með eldra árinu gegn HK tók Svala Svavarsdóttir það á sig að stíga í búrið þar til að Heiðbjört kæmi. Fyrri hálfleikurinn spilaðist vel, KA/Þór töluðu vel í vörninni og sýndu mikla baráttu. Staðan jöfn í hálfleik, 9-9. Síðari hálfleikur var síðan frábær hjá stelpunum. Vörnin lokaðist jafnt og þétt og sóknin gekk glimrandi hinum megin. Ólöf H. átti mýmörg mörk úr undirhandarskotum og réð vörn Aftureldingar illa við ákveðnar KA/Þór stelpur. Það fór svo að KA/Þór vann sinn fyrsta sigur þennan vetur og var hann fullkomlega verðskuldaður.

Allt annað var að sjá til stelpnanna, baráttan og ákveðnin frábær og mikil stemming í liðinu sem er einmitt það sem hefur sárlega vantað í leikjum hingað til.

Yngra árið gegn HK
Daginn eftir áttu þær svo leik gegn HK. HK er eitt af toppliðum 1. deildar þannig að það var ljóst að þetta yrði erfiður leikur. Stelpurnar sýndu hins vegar frábæran baráttuanda allan leikinn. Vörnin heilt yfir mjög góð og ef frá eru taldir tveir kaflar, sem komu í sitthvorum hálfleiknum, spiluðu stelpurnar frábærlega. Mikil barátta og voru mjög duglegar að koma sér í góð færi.

Leiknum lauk 20-14 og HK endaði vissulega með stigin tvö en leikurinn í heild sinni var góð fyrirheit um framtíðina hjá þessum stelpum. Þegar þær sýna baráttu og ákveðni, tala nú ekki um að hafa stemminguna með sér þá eru þær virkilega góðar. Þær virðast vera farnar að trúa því meira og meira með hverjum leiknum þannig að ef þær halda áfram að æfa af krafti mun stigunum fjölga hratt. Þær fengu sín fyrstu stig um helgina, en alls ekki þau síðustu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband