Leið KA í undanúrslitin

Almennt | Fótbolti
Leið KA í undanúrslitin
Bikarkeppnin hefur gengið vel, alla í stúkuna!

Á morgun, miðvikudag, tekur KA á móti Valsmönnum í undanúrslitum Borgunarbikarsins. Það má með sanni segja að leikurinn sé risastór enda tækifæri fyrir okkar lið til að komast í úrslitaleik bikarkeppninnar í fyrsta skiptið síðan árið 2004. Til að hita upp fyrir leikinn mikilvæga ætlum við aðeins að kíkja á leið okkar manna að undanúrslitunum.

64-liða úrslit:
19. maí. KA - Dalvík/Reynir 6-0 (3-0)

Eftir um 15 tíðindalitlar mínútur slapp Ýmir Már einn í gegnum vörn Dalvíkinga og var þar rifinn niður og aukaspyrna dæmd og fékk varnarmaður Dalvík/Reynis réttilega rautt spjald. Juraj Grizelj gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr aukaspyrnunni. Næstu tvö mörk KA skoraði síðan Ben Everson með glæsibrag eftir góða spilamennsku. Staðan var því 3-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik hélt einstefna KA-manna áfram og skoruðu heimamenn 3 mörk gegn engu. Mörkin skoruðu Juraj Grizelj, Ýmir Már og Ólafur Aron. KA hefði getað skorað fleiri mörk en markvörður Dalvíkinga, sem og tréverkið kom gestunum nokkrum sinnum til bjargar. Lokatölur 6-0 og KA komið í næstu umferð bikarsins.

32-liða úrslit:
2. júní. KA - Álftanes 4-0 (0-0)

Álftnesingar mættu gríðarlega vel skipulagðir til leiks og gjörsamlega lögðu rútunni. Það var ekki sjaldgjæf sjón að sjá 11 leikmenn gestanna fyrir aftan boltann og einkenndist fyrri hálfleikurinn af því að KA var með boltann og reyndi að brjóta gestina á bak aftur. Það gekk þó ekki á fyrstu 45 mínútunum. 

Seinni hálfleikurinn var ekki nema fjögurra mínútna gamall þegar Ævar Ingi skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábært þríhyrningaspil með Elfari Árna. KA menn gerðu gæfuríka breytingu á 65. mínútu þegar Ævar fékk hvíld og inn kom Orri Gústafsson í sínum fyrsta leik í sumar. Orri var afar lifandi fram á við og var búinn að skjóta í stöng og fá eitt gott færi áður en hann skoraði sitt fyrsta mark í sumar á 73. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Ólafur Aron Pétursson glæsilegt mark úr aukaspyrnu, hans annað mark í sumar og það var síðan Ben Everson sem rak síðasta naglann í kistu Álftnesinga á 85. mínútu.

16-liða úrslit:
18. júní. 19:15 Breiðablik - KA 0-1 (0-0)

KA mætti í Kópavoginn og mætti virkilega sterku liði Breiðabliks sem var ósigrað í Pepsi deildinni. Það reiknuðu því flestir með sigri heimaliðsins. Okkar menn mættu hinsvegar vel stemmdir í leikinn og vörðust virkilega vel. Þá sótti liðið vel þegar færi gafst og var í raun hættulegra liðið í leiknum þótt ótrúlegt megi virðast. Þegar flautað var til leiksloka var staðan enn markalaus og því ekkert annað í stöðunni en að fara í framlengingu.

Í framlengingunni byrjaði KA ákaflega vel og eftir mjög vel útfærða gagnárás kom Ævar Ingi Jóhannesson boltanum í netið með laglegum skalla á 98. mínútu. Elfar Árni fékk síðan algjört dauðafæri sem hefði getað klárað leikinn en kappanum brást bogalistin. Rajkovic í markinu kláraði hinsvegar dæmið með mögnuðum vörslum á lokakaflanum, KA fór því áfram í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins!

8-liða úrslit:
6. júlí. 18:00 KA - Fjölnir 2-1 (2-0)

Leikurinn var aðeins sjö mínútna gamall þegar að Jóhann Helgason gaf háann bolta inn á teig gestanna, sem þeim mistókst að hreinsa og boltinn datt fyrir Davíð Rúnar Bjarnason sem skilaði honum framhjá Þórð Ingasyni, markverði Fjölnis. Áhorfendur voru varla sestir þegar að Ævar Ingi Jóhannesson slapp einn í gegnum vörn Fjölnis og setti boltann yfir Þórð í markinu. Tvö núll eftir aðeins 9 mínútur og staða heimamanna vænleg.

Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta. Fjölnismenn voru meira með boltann, án þess þó að skapa sér hættulegt færi en KA beitti góðum skyndisóknum og fengu tvö dauðafæri til þess að auka muninn. Fyrst var það Juraj Grizelj sem var við það að komast einn í gegn en góður varnarleikur Fjölnis varð til þess að Juraj kom ekki skoti á markið og þá fékk Ben Everson einnig ágætt færi þegar hann og Juraj voru komnir tveir gegn einum varnarmanni Fjölnis en náðu þó ekki að gera mat úr því.

Fjölnismenn mættu gríðarlega einbeittir til seinni hálfleiks og settu þunga pressu á KA-menn. Þeir uppskáru mark á 53. mínútu þegar að Charles Mcgee skoraði með hnitmiðuðu skoti framhjá Rajko í markinu. Við þetta efldust KA menn og fékk Juraj Grizelj upplagt marktækifæri eftir frábært spil KA-manna en boltinn fór rétt framhjá. Fjölnismenn lögðu allt í sölurnar í restina til þess að jafna leikinn en KA-menn voru gríðarlega þéttir til baka og gáfu ekki eitt færi á sér.

Við bendum svo öllum á að mæta á Akureyrarvöll á morgun (miðvikudag) klukkan 18:00 og styðja okkar lið til sigurs, með sigri kemst KA í bikarúrslit í 4. skiptið!

Við hitum upp fyrir leikinn á Akureyri Backpackers klukkan 16:00 og eru sérstök tilboð á bjór og hamborgurum fyrir þá sem mæta í gulu. Gullkortahafar KA fá bjór og hamborgara frítt með því að sýna kortið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband