KA vann Álftanes örugglega

Almennt | Fótbolti

Eftir markalausan fyrri hálfleik brustu allar flóðgáttir í þeim síðari þegar að KA lagði Álftanes 4-0 í 32 liða úrslita Borgunarbikarsins í kvöld.

KA 4-0 Álftanes
1-0 Ævar Ingi Jóhannesson 49. mín
2-0 Orri Gústafsson 73. mín
3-0 Ólafur Aron Pétursson 75. mín
4-0 Ben Everson 85. mín


Hér má sjá öll mörk KA í leiknum og bendum við sérstaklega á stórglæsilegt mark Ólafs Arons úr aukaspyrnu.

KA gerði 5 breytingar á byrjunarliði sínu frá sigrinum á Gróttu en byrjunarliðið var þannig að Srdjan Rajkovic var í markinu. Hilmar Trausti Arnarsson og Hrannar Björn Steingrímsson voru í bakvörðunum. Callum Williams og Davíð Bjarnason voru í miðvörðum. Á miðjunni voru þeir Ólafur Aron Pétursson, Halldór Hermann Jónsson og Elfar Árni Aðalsteinsson. Á köntunum voru þeir Ýmir Geirsson og Ævar Ingi Jóhannesson og fremstur var Benjamin James Everson. 

Álftnesingar mættu gríðarlega vel skipulagðir til leiks og gjörsamlega lögðu rútunni. Það var ekki sjaldgjæf sjón að sjá 11 leikmenn gestanna fyrir aftan boltann og einkenndist fyrri hálfleikurinn af því að KA var með boltann og reyndi að brjóta gestina á bak aftur. Það gekk þó ekki á fyrstu 45 mínútunum. 

Seinni hálfleikurinn var ekki nema fjögurra mínútna gamall þegar Ævar Ingi skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábært þríhyrningaspil með Elfari Árna. KA menn gerðu gæfuríka breytingu á 65. mínútu þegar Ævar fékk hvíld og inn kom Orri Gústafsson í sínum fyrsta leik í sumar. Orri var afar lifandi fram á við og var búinn að skjóta í stöng og fá eitt gott færi áður en hann skoraði sitt fyrsta mark í sumar á 73. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Ólafur Aron Pétursson glæsilegt mark úr aukaspyrnu, hans annað mark í sumar og það var síðan Ben Everson sem rak síðasta naglann í kistu Álftnesinga á 85. mínútu. 

Yfirburðir KA voru óumdeilanlegir í þessum leik og hafði Rajko lítið við að vera í marki KA. KA verður því í pottinum á föstudaginn þegar dregið verður í 16-liða úrslitum bikarsins. 

Næsti leikur KA er hinsvegar gegn Selfossi á laugardaginn og verður sá leikur á gervigrasinu okkar! 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband