KA valtaði yfir BÍ/Bolungarvík

Fótbolti
KA valtaði yfir BÍ/Bolungarvík
Ævar Ingi, Jóhann og Elfar Árni skoruðu á Ísafirði

KA mætti um helgina vestur á Ísafjörð þar sem heimamenn í BÍ/Bolungarvík tóku á móti okkar mönnum. Leikurinn var mjög mikilvægur fyrir bæði lið enda KA enn í baráttu um að koma sér upp í Pepsi deildina á meðan heimamenn reyna hvað þeir geta til að bjarga sér frá falli úr deildinni.

BÍ/Bolungarvík 0 - 4 KA
0-1 Ævar Ingi Jóhannesson ('3)
0-2 Elfar Árni Aðalsteinsson ('14)
0-3 Ævar Ingi Jóhannesson ('18)
0-4 Jóhann Helgason ('87)

Okkar menn hafa verið á miklu skriði eftir að Tufa tók við sem aðalþjálfari liðsins og það vantaði ekki í upphafi leiks á Ísafirði. Strax á þriðju mínútu skoraði Ævar Ingi Jóhannesson fyrsta mark leiksins, algjör draumabyrjun á leiknum!

Rétt eins og í undanförnum leikjum héldu okkar menn áfram að sækja stíft og leita að fleiri mörkum til að gera útum leikinn strax og það tókst þegar Elfar Árni Aðalsteinsson tvöfaldaði forskotið með marki á 14. mínútu sem er hans tíunda í deildinni í sumar.

Heimamenn virtust ráðalausir eftir þessa svakalegu byrjun og ekki leið á löngu uns Ævar Ingi skoraði sitt annað mark í leiknum og ljóst að leikurinn var í raun búinn eftir einungis 18. mínútur!

Áfram réðu okkar menn lögum og lofum í leiknum en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og í raun eina spurningin í hálfleik hversu stór sigur okkar manna myndi verða.

Heimamenn komu sterkari til leiks í síðari hálfleik og fengu færi til að minnka muninn en inn vildi boltinn ekki. En okkar menn fengu einnig sín færi og loksins á 87. mínútu fylgdi fyrirliðinn Jóhann Helgason á eftir frákasti og skallaði boltann í netið. Jói hafði ekki skorað í langan tíma fyrir félagið en er nú búinn að skora í þremur leikjum í röð!

Lokatölur 0-4 og frábær 3 stig í hús og það sem enn magnaðra er að KA er að vinna leikina stórt sem hefur lagað markatölu liðsins mikið. Þrír leikir undir stjórn Tufa, þrír sigrar og markatalan 12-1. Á sama tíma misstigu Þróttarar sig gegn Fram í 2-2 jafntefli og munurinn á liðunum kominn niður í 3 stig.

Enn eru fjórar umferðir eftir af deildinni og ljóst að ef KA heldur áfram að vinna sína leiki og það sannfærandi þá er aldrei að vita hver lokastaðan í deildinni verður, það er líf í okkar vonum um að fara upp og nú er bara að fjölmenna á næsta leik og styðja liðið til sigur. Næsti leikur er heimaleikur gegn HK á Akureyrarvelli á laugardaginn 29. ágúst klukkan 15:00, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband