KA í úrslit Lengjubikarsins í fyrsta sinn

Almennt | Fótbolti
KA í úrslit Lengjubikarsins í fyrsta sinn
Gauti Gautason lék vel í miðverðinum í dag.

Lið KA í knattspyrnu tryggði sér í dag sæti í úrslitum Lengjubikarsins með því að leggja lið ÍA að velli eftir vítaspyrnukeppni. Það var markvörður KA, Srdjan Rajkovic, sem reyndist hetja liðsins þegar hann varði síðustu vítaspyrnu Skagamanna.

Mikið rok að suð-vestan setti svip sinn á leikinn og reyndist leikmönnum oft erfitt að halda boltanum inn á vellinum sökum vinda. Skagamenn skoruðu fyrsta mark leiksins en þeir léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Mark þeirra gerði Jón Vilhelm Ákason eftir aukaspyrnu en fram að því hafði KA verið sterkari aðilinn í leiknum án þess þó að skapa sér góð færi.

Í síðari hálfleik hélt KA uppteknum hætti og hélt boltanum vel innan liðsins, illa gekk þó að opna vörn úrvalsdeildarliðsins. Það var ekki fyrr en á 71. mínútu sem að loksins tókst að brjóta ísinn. Mark KA kom eftir hornspyrnu sem Juraj Grizelj sendi fyrir markið og leikmaður ÍA varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma, þrátt fyrir að ÍA hafi sótt í sig veðrið og fengið tvö góð tækifæri til þess að skora sigurmarkið.

Í Lengjubikarnum er engin framlenging heldur farið beint í vítaspyrnukeppni. Arnar Már Guðjónsson, fyrrum fyrirliði KA og núverandi leikmaður ÍA fór fyrstur á punktinn en brást bogalistinn og skaut í stöng. KA skoraði úr öllum sínum spyrnum en þær tóku: Jóhann Helgason, Juraj Grizelj, Elfar Árni Aðalsteinsson og Atli Sveinn Þórarinsson. Fjórða skytta skagamanna misnotaði einnig sína spyrnu en hana varði Rajko glæsilega og tryggði KA sigurinn.

Úrslitaleikur Lengjubikarsins fer fram á fimmtudaginn (sumardaginn fyrsta) í Kórnum klukkan 17:00 en andstæðingar KA verða grænklæddir Breiðabliksmenn. Við hvetjum alla KA-menn á suð-vesturhorninu til þess að fjölmenna í Kórinn á fimmtudag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband