Góð endurkoma Þór/KA dugði ekki til

Fótbolti
Góð endurkoma Þór/KA dugði ekki til
Slæmur fyrri hálfleikur varð Þór/KA að falli

Kvennalið Þórs/KA tapaði í kvöld gegn Stjörnunni 3-2 í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins og er því dottið úr leik.

Stjarnan 3 - 2 Þór/KA
1-0 Harpa Þorsteinsdóttir ('4)
2-0 Lára Kristín Pedersen ('26)
3-0 Lára Kristín Pedersen ('40)
3-1 Klara Lindberg ('56)
3-2 Kayla June Grimsley ('77, víti)

Ekki var mikið búið af leiknum þegar Harpa Þorsteinsdóttir kom Stjörnunni yfir með mögnuðu marki uppi í vinkilinn. Lára Kristín Pedersen skoraði síðan tvívegis fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan því ekki vænleg fyrir okkar lið þegar blásið var til hálfleiks.

Fyrri hálfleikurinn var ekki nægilega góður, eina alvöru færi liðsins fékk Sandra María Jessen eftir fínt spil en skot hennar var ekki gott og fór boltinn hátt yfir markið.

Það var hinsvegar meiri kraftur og betra spil hjá stelpunum í síðari hálfleik og greinilegt að þær ætluðu ekki að leggja árar í bát. Klara Lindberg minnkaði muninn eftir magnaða sendingu frá Kaylu Grimsley en Kayla hefur verið að leggja upp mikið af mörkum í sumar.

Kortéri fyrir leikslok fengu okkar stúlkur síðan vítaspyrnu þegar boltinn hrökk af hendinni á Önnu Björk í teig Stjörnunnar. Kayla skoraði úr vítinu en Sandra í markinu hafði þó hendur á boltanum en skotið of fast og boltinn lá í netinu.

Lið Stjörnunnar gaf svo vel í eftir að staðan varð 3-2 og var líklegri til að bæta aftur við forskotið heldur en Þór/KA að jafna. Lokatölur 3-2 og mjög jákvætt að sjá stelpurnar koma til baka og reyna sitt besta að jafna leikinn eftir erfiða stöðu í hálfleik.

Bikardraumurinn er því úti þetta árið og getur liðið nú einbeitt sér að því að hífa sig aftur upp í Pepsi deildinni. Næsti leikur er miðvikudaginn 8. júlí á heimavelli gegn Selfoss


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband