Frakklandsferð 4. flokks KA/Þór

Handbolti

Stelpurnar í KA/Þór 4. flokki luku á laugardaginn leik á sterku móti í Objat í Frakklandi.
Stelpurnar enduðu í 2. sæti í sínum riðli eftir að hafa lagt lið Neusser frá þýskalandi og heimastúlkur í Objat af velli. Síðasti leikurinn í riðlinum var gegn risum frá Serbíu. Leikurinn var æsispennandi og fór svo að Sebarnir unnu með einu þrátt fyrir að KA/Þór hefði fengið sæg af tækifærum síðuðstu mínúturnar til að klára leikinn. 2. sætið í riðlinum raunin og undanúrslit gegn ákaflega sterku spænsku liði á laugardaginn. 
Stelpurnar mættu mjög grimmar til leiks og áttu Spánverjarnir í miklum vandræðum með ógnarsterka vörn Íslendinganna. Mest náðu KA/Þór stelpur 6 marka forystu og allt útlit fyrir að úrslitasætið væri í höfn. Hins vegar náðu Spánar stelpur að saxa á forskotið jafnt og þétt og rétt fyrir leikslok náðu þær að jafna. Leikurinn var framlengdur með gullmarki, fyrsta liðið til að skora fór áfram. Spánverjar byrjuðu með boltann og skoruðu úr sókninni og því fór sem fór.

Leikurinn um 3. sætið var því spilaður og vildi svo skemmtilega til að sá leikur var gegn Serbunum sem einnig höfðu tapað með einu marki gegn rúmensku liði í undanúrslitum. Serbarnir voru með gríðarsterkt lið með hreint út sagt frábærar skyttur. Var önnur skyttan m.a. valin maður mótsins á verðlaunaafhendingunni.
Verst fyrir hana og restina í serbneska liðinu að þarna mættu pirraðar og þreyttar norðanstúlkur í hefndarhug. Vörnin var stórkostleg, sóknin frábær og markvarslan stórbrotin. Íslenska brjálæðið vann þarna risasigur og lokatölur 12-21 sigur KA/Þór.

Frábær árangur hjá stelpunum í þessu móti. Fyrir mót var örlítil minnimáttarkennd gagnvart þessum risum sem allar litu út fyrir að vera svo stórar og sterkar. Það kom hins vegar í ljós að KA/Þór er bara helvíti líkamlega sterkt með sprengikraft sem ekkert af liðunum réð auðveldlega við. Vörn stúlknanna fékk mikið lof frá öllum mótshöldurum sem og öðrum þjálfurum. Stelpurnar keyrðu upp hraðann í öllum leikjum og áttu mótherjarnir í miklum vandræðum með að halda í við þær. Til marks um það má benda á að spænska liðið skíttapaði úrslitaleiknum. Bensínið hjá þeim var alveg búið eftir 40 mínútur af sprettum gegn KA/Þór.

Þessi hópur hefur nú þegar sannað sig heimafyrir sem frábært lið. Í fyrrasumar sönnuðu þær sig á Partille Cup með frábærum árangri og nú í sumar enn og aftur með frábærum árangri á þessu móti.

Þetta er frábært lið sem enn á heilmikið inni. Einstaklingarnir í liðinu eru margir hverjir virkilega efnilegir sem nauðsynlegt er að halda vel utanum og sjá til þess að þær skili sér alla leið. Utanumhaldið er hægt að útvega en þær verða að vilja leggja það á sig sem þarf til að ná alla leið. Það er auðvelt að vera efnilegur en það kostar helvíti mikið að verða góður. Þær hafa margoft sýnt að þær eru til í að leggja mikið á sig til að ná árangri. Nú vill maður að þær hugsi enn lengra, setji sér takmark fyrir næstu fimm ár og fari að stefna markvisst að því. Ekki vantar hæfileikana, nú má bara ekki sóa þeim.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband