Akureyri með mikilvæga heimaleiki í vikunni

Almennt | Handbolti

Þessi vika verður ákaflega mikilvæg hjá okkar liði þar sem Akureyri leikur tvo heimaleiki. Á fimmtudaginn mæta Valsmenn í heimsókn og á sunnudaginn mæta Íslandsmeistararnir í ÍBV norður. Við skulum taka þessa tvo daga frá strax og fjölmenna í Höllina til að fá tvo sigra útúr þessari viku!

Það var frábær stemming í Íþróttahöllinni í síðasta leik gegn Stjörnunni og áttu áhorfendur sinn þátt í að liðið náði frábærum seinni hálfleik sem færði góðan sigur í hús. Þjálfarateymi liðsins sendi í kjölfarið þakkarkveðju til stuðningsmanna:
Kæru stuðningsmenn? - Fyrir hönd liðsins langar okkur að þakka ykkur fyrir þann flotta stuðning sem þið sýnduð okkur í síðasta leik.
Vonandi sjáumst við sem oftast í vetur og sköpum góða stemmingu í kringum liðið og handboltann í bænum.
Bestur kveðjur
Sverre, Heimir og Sigurpáll.

Akureyri – Valur á fimmtudaginn klukkan 18:00
Það er sterkt lið Valsmanna sem heimsækir Akureyri næstkomandi fimmtudag. Valsmenn voru ekki langt frá því að fara alla leið í deildinni í fyrravetur en féllu úr leik í fjögurra liða úrslitunum gegn ÍBV í dramatísku fimm leikja einvígi. Eins og menn muna héldu Vestmannaeyingar áfram og enduðu sem Íslandsmeistarar.

Það gekk mikið á hjá Val í fyrra, Ólafur Stefánsson var ráðinn þjálfari og fjölmargir leikmenn gengu til liðs við Val, ekki síst til að njóta handleiðslu Ólafs. Þar á meðal voru frændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson sem Valsmenn höfðu að láni frá Akureyri í fyrra vetur. Nú er sá lánssamningur útrunninn og þeir orðnir formlegir liðsmenn Vals.

Í sumar héldu Valsmenn áfram að styrkja leikmannahópinn. T.d. sneri línumaður íslenska landsliðsins, Kári Kristjánsson heim til Íslands og gekk að endingu til liðs við Val.

En það dró til tíðinda hjá Valsmönnum viku fyrir upphaf keppni í Olís-deildinni þegar tilkynnt var mjög óvænt að Ólafur Stefánsson hefði dregið sig í hlé sem þjálfari, allavega fram til áramóta.

Núverandi þjálfarar Vals eru Óskar Bjarni Óskarsson sem hefur reyndar áður komið við sögu sem þjálfari Vals og með honum starfar Jón Ríkharður Kristjánsson sem lengi lék með Val og þjálfaði fyrir nokkrum árum m.a. ÍR. En Jón er þó norðanmaður að upplagi, fyrir þá sem ekki vita þá er Jón bróðir Erlings Kristjánssonar og saman léku þeir bræður handbolta með KA og urðu auk þess Íslandsmeistarar með KA í knattspyrnu 1989.


Þjálfararnir, Jón Kristjánsson og Óskar Bjarni

Eftir þrjár umferðir er Valur með þrjú stig, gerðu jafntefli við ÍR í fyrstu umferð, töpuðu á heimavelli fyrir Aftureldingu en unnu HK í síðustu umferð.

Eftir þessa þrjá leiki er Guðmundur Hólmar Helgason markahæstur með 12 mörk, Finnur Ingi Stefánsson og Vignir Stefánsson 11 mörk. Elvar Friðriksson með 7 en línumennirnir Kári Kristjánsson og Orri Freyr Gíslason 6 mörk hvor. Geir Guðmundsson hefur haft fremur hægt um sig, er með 5 mörk eftir þrjá leiki.

Valsliðið er gríðarlega vel mannað og er vænst mikils af liðinu. Í síðasta leik þeirra, gegn HK hrökk markvörðurinn Hlynur Morthens heldur betur í gang og var að öðrum ólöstuðum maðurinn á bak við sigur Vals. Hlynur, eða Bubbi eins og hann er kallaður hefur oftar en ekki verið besti leikmaður Vals þegar þeir koma hingað norður og undantekningarlítið fengið matarkörfu Valsliðsins. Reyndar var það Geir Guðmundsson sem fékk körfuna síðast þegar liðin mættust en þá fór Geir á kostum og sá til þess að Valur náði jafntefli úr þeim leik.

Síðasta leik liðanna lauk sem sé með jafntefli en leikir liðanna hafa yfirleitt verið spennuþrungnir og ekki að efa að það verður mikið fjör í Íþróttahöllinni á fimmtudaginn. Leiktíminn er dálítið óvenjulegur en leikurinn hefst klukkan 18:00 og rétt að minna þá sem ekki hafa náð sér í Gullkort (stuðningsmannaskírteini) að koma tímanlega til að ná sér í kort.

Akureyri – ÍBV á sunnudaginn klukkan 15:00
Það er svo stutt í næsta leik þar á eftir því strax á sunnudaginn koma Íslandsmeistarar ÍBV í heimsókn en sá leikur hefst klukkan 15:00. Nánar um þann leik síðar.

Viðurkenningar til leikmanna Akureyrar
Frábær frammistaða Sigþórs Árna Heimissonar og Heiðars Þórs Aðalsteinssonar í leiknum gegn Stjörnunni hefur ekki farið framhjá þeim sem fjalla um Olís-deild karla í fjölmiðlum. Sigþór og Heiðar Þór Aðalsteinsson voru valdir í úrvalslið umferðarinnar af handboltavefnum fimmeinn.is. Og þar að auki var Sigþór Árni valinn besti leikmaður umferðarinnar af tíðindamönnum sport.is.


Sigþór Árni splundrar vörn Stjörnunnar

Meira um allt þetta á vef Akureyrar Handboltafélags: http://www.akureyri-hand.is auk þess sem við minnum á facebook síðu félagsins: https://www.facebook.com/akureyrihand

Þá er rétt að minna þá sem eru á faraldsfæti á létta vefútgáfu af heimasíðunni sem er einmitt þægileg í símann: http://akureyri-hand.is/m

  

Með von um að sjá þig í Íþróttahöllinni,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband