Viðburður

Almennt | Handbolti - 19:00

Akureyri mætir FH í Höllinni í dag, fimmtudag

Það er heldur betur mikilvægur leikur í dag, fimmtudag klukkan 19:00 þegar Akureyri mætir FH í Íþróttahöllinni. Leikir liðanna hafa svo sannarlega verið dramatískir og skemmtilegir þannig að þetta er klárlega leikur sem enginn má missa af.

Nokkrar breytingar urðu hjá FH-ingum fyrir þetta tímabil. Í þjálfarasætið er kominn Akureyringurinn Halldór Jóhann Sigfússon sem varð Íslandsmeistari með KA 1997 og 2002 en hélt síðan til Þýskalands. Við heimkomuna gekk Halldór til liðs við Fram en lagði keppnisskóna á hilluna vorið 2012 og hefur verið þjálfari síðan.


Halldór Jóhann ræðir við sína menn í hálfleik

Burðarásar FH liðsins eru reynslumiklir kappar, þar nefnum við fyrstan leikstjórnandann Ásbjörn Friðriksson, fyrrum leikmann Akureyrar en Ási hefur verið einn almikilvægasti leikmaður FH liðsins undanfarin ár.


Ásbjörn í leik FH og Aftureldingar

Sömu sögu má segja af skyttunum Ragnari Jóhannssyni og Magnúsi Óla Magnússyni auk þess sem Ísak Rafnsson hefur komið sterkur inn í skyttuhlutverkið á þessu tímabili.

Fyrir tímabilið fengu FH ingar Daníel Matthíasson frá Akureyri en hann er ungur og gríðarlega hraustur línumaður.


Daníel (nr 3) tók fullan þátt í baráttu Akureyrar gegn FH í Höllinni í fyrra

FH og Akureyri mættust tvisvar í Höllinni í fyrravetur, fyrst í bikarkeppninni í sannkölluðum háspennuleik sem fór í framlengingu þar sem FH hafði loks betur 30-32. Þrem dögum seinna mættust liðin aftur í Höllinni, sá leikur var í Olís deildinni og þá fór Akureyri með eins marks sigur 24-23 með marki sjö sekúndum fyrir leikslok.

Liðin mættust í Hafnarfirði í þriðju síðustu umferð deildarinnar og þar vann Akureyri gríðarlega mikilvægan sigur 26-28 og tvö stig sem heldur betur komu sér vel í lok deildarinnar.

Það er því óhætt að gera ráð fyrir frábærri skemmtun í Höllinni klukkan 19:00 í kvöld.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband